þriðjudagur, 19. maí 2009

Er heimasíðan þín að skila árangri?


Fyrirtæki setur jafnan upp heimasíðu til að kynna sig og starfsemi sína. Vefsíðan er auglýst með ýmsum hætti og smám saman fjölgar gestum að garði. Það nægir þó ekki að fá heimsóknir á vefsíðuna; hún þarf að höfða til gestanna.

Sumir átta sig ekki á, að heimasíður fyrirtækja snúast hvorki um fyrirtækið né vöru eða þjónustu þess, heldur fyrst og fremst um núverandi eða væntanlega viðskiptavini. Þeir netverjar, sem heimsækja fyrirtækissíðu, gera það því þeir eiga þangað erindi. Þeir leita upplýsinga um vöru og/eða þjónustu og, ef þær finnast mjög fljótlega, ákveða þeir hvort skuli skipta við umrætt fyrirtæki eða athuga, hvort samkeppnisaðilar bjóði betur. Þeir athuga þá ekki aðeins verðlag, heldur hvaða fyrirtæki virðist helst traustvekjandi og líklegri til að bjóða vandaða vöru og þjónustu. Þá ræður jafnan mestu upplifun þeirra af vefsíðu fyrirtæksins, innhaldi hennar, útliti og viðmóti.

Fyrirtækisvefsíða þarf því að hafa eitthvað markvert í boði, svo gesturinn staldri við, leiti frekari upplýsinga og ákveði síðan að skipta við fyrirtækið, eða snúa aftur þegar samanburði er lokið.

Vefsíðan þarf að tala til gestanna á skiljanlegu máli og bjóða upp á eitthvað, sem þeir hafa áhuga á. Að öðrum kosti er ólíklegt, að hún skili fyrirtækinu tilætluðum árangri. Með markvissri uppsetningu síðunnar og góðri internetráðgjöf geta fyrirtæki bætt ímynd sína ennfrekar, fjölgað heimsóknum og aukið sölu. Þannig græða bæði fyrirtæki og viðskiptavinir; „win-win situation“, eins og engilsaxar segja. Munurinn á heimasíðu og góðri heimasíðu getur skipt sköpum um, hvort fyrirtækið dafni eður ei.

Ef spurningar vakna, bendum við lesendum á, að leita til sérfræðinga, því mestur árangur næst með fagmennsku í fyrirrúmi.
Birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu í maí.

sunnudagur, 7. september 2008

Póstlistar. Þægileg viðbót við vefumsjónarkerfi


Þeir netverjar sem ferðast reglulega um vefinn, hafa án efa tekið eftir litlum hólfum á fjölda vefsvæða, þar sem boðið er upp á skráningu á póstlista.

Sumir ganga jafnvel lengra og skrá sig.

Mörg fyrirtæki hafa tekið upp póstlistaþjónustu að undanförnu, enda sjá þau mikinn hag í slíkri þjónustu. Einnig hafa félagasamtök og einstaklingar tekið þessa þjónustu inn á vefsíðu sína, ekki síst þeir aðilar sem starfa á vettvangi stjórnmála.
Með skynsamlegri notkun póstlista geta fyrirtæki og félagasamtök fylgst með umferð á vefinn, metið hvernig lesendur koma á síðuna og komið á fót tengslum við viðskiptavini sína. Jafnframt er þetta þægilegt markaðstæki, m.a. til að tilkynna útsölur, tilboð, eða einhverja sérstaka viðburði í fyrirtækinu/félagasamtökunum.
Póstlistar eru ódýrt og þægilegt markaðstæki, sem vefsíðueigendur ættu ekki að láta framhjá sér fara.