Notarðu ókeypis vefumsjónarkerfi? Er það virkilega ókeypis?
Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Menn greiða fyrir matinn fyrr eða síðar, með einum eða öðrum hætti. Það á ekki síst við um „open-source“ vefumsjónarkerfi, eins og Joomla! og Mambo, en þau hafa notið töluverðra vinsælda og eru vinsæl meðal íslenskra fyrirtækja, þó sérstaklega Joomla!
Þessi kerfi eru aðgengileg og notkun þeirra á vefsvæðum hefur tiltölulega lítinn kostnað í för með sér. Þau hafa þannig jafnframt orðið grundvöllur starfsemi ýmissra vefhönnunarfyrirtækja sem nýta sér Joomla! án þess að hafa neitt upp á að bjóða. Slík fyrirtæki fjöldaframleiða ódýrar heimasíður og dæla þeim út til viðskiptavina, án þess e.t.v. að segja þeim hvað í raun er verið að bjóða upp á. Það sem sagt er, má vel vera satt, en sumt er þó áfram geymt í skugganum.
Hádegisverðurin er nefnilega aldrei ókeypis. Það er alltaf einhver sem þarf að borga. Einn kostnaðurliðurinn er, hvað snertir Joomla! og önnur „open-source“ vefumsjónarkerfi, að þau eru jafnan ekki jafn örugg og búin eins mörgum aukahlutum og hefðbundin vefumsjónarkerfi. Joomla!, sem er þekktasta „open-source“ vefumsjónarkerfið, hefur til að mynda enn vel yfir 80 öryggisvandamál samkvæmt úttekt Secunia frá ágúst 2008, en Joomla! 1.5 var sett á markað í janúar 2008 og hefur verið með alvarlega öryggisleka allt frá byrjun, svipað og kerald Bakkabræðra.
Fleiri alvarlegar athugasemdir hafa komið fram, eins og rætt hefur verið um í fjölmörgum greinum. En eitt það alvarlegasta við slík kerfi er, að það er ekki fullljóst að þau séu lögleg. Nefna má, að forritarar nota oft aðra "open-source" þætti, sem vissulega eru frjálsir, en ekki til að nota án leyfis eða sem hluta í önnur forrit. Fyrirtæki sem nota slík kerfi gætu jafnvel fengið lögsókn yfir sig, þó vísast muni rétthafar varla nenna að eltast fyrir lítil fyrirtæki á Íslandi hvað það snertir.
Annað vandamál er, að forritunarkóðinn virðist ekki alltaf verið í samræmi við ráðleggingar Google og því er alls ekki ólíklegt, að leitarvélar meti síður, sem nota slík kerfi, neðar en þær, sem nota hefðbundin vefumsjónarkerfi.
Joomla! er þó alls ekki slæmt lausn, til að mynda fyrir lítil fyrirtæki sem hafa e.t.v. ekki ráð á flóknum og dýrum kerfum, sér í lagi þegar þau eru ofmetin og e.t.v. engu eða lítið betri en "open-source" kerfin. En þau skulu hafa í huga, að hugsanlega eru þau að hirða aurinn en kasta krónunni.
Spurning hvort ekki sé hagstæðara, þegar til langs tíma er litið, að láta heimasíðugerð í hendur fagmanna?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli